Lókur í Laug 2018

Að vana, fórum við félagar sem upprunalega vorum í Súkka.is félagshópnum, og jafnvel í seinni tíð G7 Offroad Team hópnum, ásamt fjölda félaga okkar í jeppaferð í Landmannalaugar, sá vani hefur verið á ferðum þessum að fara alltaf fyrstu helgi í janúar ár hvert. Og er þetta níunda árið sem við förum. Upprunalega fórum við bara örfá og á örfáum bílum, nú í ár voru á milli 25 og 30 bílar og 60-70 manns.

Við troðfylltum skálann.

Ferðin sóttist vel og tel ég að allir hafi haft gaman að, færi á föstudagskvöld var með eindæmum gott, enda hafði ekki snjóað á þessum slóðum í að verða mánuð og hafði þjappað vel í för og var í sanni sagt, fólksbílafæri. Það átti þó eftir að breytast. Við fórum Sigölduleið upp með virkjunum við Hrauneyjar og inn að Bjallarvaði og í Landmannalaugar.

Mjög stjörnubjart og kalt var á aðfaranótt laugardags, um 19 gráður í frosti og stillt, og alger stjörnuhiminn, ekki ský á lofti. Síðar um nóttina fór að þykkna upp og hlýna, og snjóaði töluvert undir morgun og fram til hádegis.

Á laugardeginum fórum við sem höfðum komið okkur inneftir í góða færinu, á móti þeim sem ætluðu að koma á laugardegi, þeir ætluðu aðra leið, um Dómadal og niður Dómadalsháls sem oft er farartálmi ferðalanga á veturna. Þessi ferð okkar áleiðis til þeirra sóttist ágætlega, þungt púðurfæri var á köflum en bílar gengu vel og menn voru kátir.

Laugin var mjög heit og óvenju hrein, lágu margir lókar í laug í það skipti undir stjörnubjörtum himni, nokkrar dömur sóttu ferðina en létu ekki spyrjast, enda ekki marga lóka að sjá, bæði vegna myrkurs og kulda.

Af uppákomum ber helst að nefna að einn ferðalangur lenti í að missa framdrif á bifreið sinni í Búrfellshlíðum í Þjórsárdal á föstudagskvöldi, sneri þá rakleiðis við aftur í bæinn og til viðgerða. Áttum við von á honum daginn eftir, á laugardegi. Um hálfþrjú eftir miðnætti fáum við símtal inn í skála, þá var kauði búinn að laga bílinn, og kominn á honum langleið inn í Landmannalaugar einbíla. En það sem verra var að hann var aftur búinn að missa framdrif og því bjargarlaus í snjónum. Fórum við því og sóttum hann og drógum bíl að skála til viðgerða. Ekki vildi  betur til en svo að á laugardagskvöldi þegar meiningin var að athuga með viðgerð á bifreiðinni, sneri eigandi bílsins illa upp á löppina á sér og small úr hnjálið, eitthvað sem hafði gerst í nokkur skipti áður, en þýddi miklar kvalir og það að honum var ómögulegt að aka bílnum til byggða sjálfur, fór því viðgerð fyrir lítið og brá aðstoðarökumaður hans sér í bílstjórasætið á afturdrifsjeppanum, sóttist heimferð ágætlega og var bíllinn ekki til nokkurra teljandi trafala þó hann hafi verið í spotta víða á leiðinni til Hrauneyja.

Nokkrar myndir úr ferðinni og myndskeið

fór og fékk skoðun á jeppann fyrir ferð, nánast athugasemdalaus

mættur við Olís

laugardagsmorgun í Landmannalaugum

Bílar fljóta betur en fólk á snjó

Brotnir felguboltar á LC60

 

 

 

Leave a Reply