Í gær skruppum við félagar á þremur bílum á Skjaldbreiður, í raun til að reyna á nýsmíðaðan bíl Brynjars félaga okkar, suzuki vitara jeppa á 37″ dekkjum.
Hann hafði komið með okkur á bílnum í Landmannalaugar í byrjun janúar en lent í vandræðum með drifbúnað, og sannað þykir að lausn hafi fundist á því vandamáli því bíllinn stóð sig vel í ferðinni núna.
Skyndiákvörðun réði för, um kl 13.00 kom hugmynd að förinni, kl 14.30 hittumst við og lögðum af stað, við vissum af félögum okkar sem höfðu farið þetta fyrr um morguninn og mættum við þeim við Þingvelli.
Allt gekk einsog í sögu, töluvert var af bílum á ferðinni og enn fleiri vélsleðar, förin á Gjábakkavegi voru svo mörg, og svo óslétt að nánast var ógjörningur að halda nokkrum ferðahraða, en við vorum komin að Skjaldbreiðum um kl 1630 í ljósaskiptum, við þaustum upp og höfðum lítið fyrir, þrátt fyrir nokkurn snjó, bílar og menn stóðu sig vel og súkkan þaut eins og snjóþota ofaná snjónum meðan dísel orkuverin áttu í mestu makindum með að halda í við hana, þarna sá ég í fyrsta skipti kælivatnshitamælinn á mínum bíl rísa, enda kannski ekki skrítið, hamagangurinn var slíkur.
í 800 m.y.s. fór skyggni að versna mjög og snerum við þá við, meðan þeir félagar tóku myndir laumaðist ég upp í 900m.y.s. eftir GPS og sá ekki nokkurn skapaðan hlut, og átti oft erfitt með að átta mig á hvort bíllinn var á hreyfingu eða ekki, svo þá var snúið við.
Sammældumst við um að prófa að aka Eyfirðingaveg frá Skjaldbreiðum og þannig yfir á Uxahryggjaleið. Gekk sú ferð ágætlega þar til um 11km voru eftir, þá var bleyta í förum farin að gera verulega vart við sig og greinilegar tjarnir sem myndast höfðu undir snjólagi, töldum við óráðlegt að halda ferð þessari áfram eftir að ég hafði brotnað niður um vök og sá hvergi leið áfram öðrumvísi en að halda mjög til hryggja, sem er letjandi og ekki gáfulegt m.a. vegna þess að við vorum ekki vel útbúnir fyrir krapasull, og í nokkurri tímaþröng, eða ég og Sóley hið minnsta því hún þurfti að mæta í vinnu um kvöldið.
Snerum við því til baka inn á Gjábakkaveg og hossuðumst þar niður á Þingvelli.
Nokkrar myndir frá Sóley
Útbúning þennan fékk ég frá Ali Express fyrir lítið fé, og þar sem ég legg mikla áherslu á að vera ekki töff, þá fer þetta mér bara nokkuð vel
Meðfram hrauninu í átt að Skjaldbreið
Skyggni fer minnkandi
Ekki margt að sjá í 900m en LED kastararnir eru að gera gott mót
Uppstilling fyrir myndatökur
Menn voru viljugir heim, og bauð færið oft upp á slíkan ferðahraða, en frosnir hryggir mynduðu reglulega þessa stökkpalla og þá var eins gott að halda sér vel
Þarna fórum við yfir á nokkurri ferð en sáum tjörn fyrir framan og minnkuðum hraðann, við það súnnkaði Hilux minn niður í krapa en kraflaði sig áfram upp á steinþúfu, ákváðum við þá að snúa för okkar til baka
Stærðar stöðuvatn